KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Lögreglan lýsir eftir stórhættulegum ráðgjafa hjá Landsbankanum sem platar fólk til að notfæra sér skattaskjól

Fjármálaráðgjafar líta allir nokkurn veginn svona út.

Leit stendur enn yfir að ráðgjafanum hjá Landsbankanum sem grunaður er um að hafa með bellibrögðum og prettum náð að plata nokkra ráðamenn til að koma peningum sínum úr landi og í erlent skattaskjól. Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með málið, kemur fram að ráðgjafinn sé á fertugsaldri, um 182 sm á hæð og alveg stórhættulegur.
 
Svo virðist sem ráðgjafinn hafi náð að blekkja forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra til að stofna félög með engan tilgang í erlendum skattaskjólum bara svona af því bara.
 
Auðvitað var aldrei ætlunin að notfæra sér veru félagana í skattaskjólum til að svíkjast eitthvað undan, að sjálfsögðu ekki. Þetta voru svona lítil og krúttleg fjölskylduskúffufyrirtæki sem auðvitað greiddu öll sín gjöld og skatta af öllu sem þau viðurkenndi að eiga.
 
Að sögn þremenningana, sem nú eru í forystusveit ríkisstjórnar landsins, var það þessi ljóti og illi fjármálaráðgjafi Landsbankans sem plataði þau til að vera með allskonar fjármálaleikfimi sem líta kannski grunsamlega út en voru alveg sárasaklausir gjörningar.

Þeir sem vita frekari deili á ráðgjafanum slóttuga eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 112.