KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Allt tiltækt lið lögreglu gert út til að handsama Pokémona

Tæknideild lögreglunnar breytti hraðamyndavélum sínum í sérstök Pokémon-leitartæki.

Algjör upplausn er innan lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu eftir að Sigríður Björk, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, sendi allt tiltækt lögreglulið út til að handsama Pokémona.

Ákvörðun sína byggði Sigríður á orðrómi, ekki gögnum. Hafði henni borist til eyrna að lítil skrímsli sem kallast Pokémon hefðu ráðist á Reykjavík. Þá hafi hún með ákvörðuninni brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sóað tíma lögreglunnar og fjármunum og gert hana að athlægi því um var að ræða nýja tölvuleik sem spilaður er með myndavél snjallsíma, ekki raunverulega hættu sem krafðist viðbragða lögreglu.

Málið er talið allt hið vandræðalegasta. Í gærmorgun voru allir lögreglumenn ræstir út með látum vegna einhverrar óljósrar plágu sem herjaði á höfuðborgarsvæðið.

„Við hlupum öll út, sérsveitin líka, því okkur hafði verið tjáð af yfirmönnum að þetta væri stóra stundin. Það sem við höfum verið að æfa fyrir allan þennan tíma. Fólk væri ekki óhult,“ segir einn lögreglumaður sem vill ekki láta nafn síns getið.

„Ég er verulega ósáttur við að hafa verið látinn hlaupa út í bíl, keyra með blikkandi ljós niður í bæ, hlaupa á harðaspretti inn í einhvern bakgarð og til þess eins að komast að því að það var vegna tilkynningu um Rattata, einhverja fjólubláa rottu sem er fígúra úr einhverjum tölvuleik,“ heldur hann áfram.

„Það rann mjög flótlega upp fyrir okkur að við vorum að eltast við einhvern fíflagang en lögreglustjórinn var alveg hörð á því að við ættum að hafa uppi á þeim öllum og handsama. Þvílíkur fíflagangur.“

Það var því lítið annað að gera fyrir lögreglumenn en að taka upp símana sína, hlaða niður leiknum og byrja að handsama Pokémona.

„Ég vildi geta sagt að fangageymslur væru fullar af þessum kvikindum en sú er ekki raunin. Hinsvegar er hver einasti lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu orðinn allavega level 20 Pokémon þjálfari.“

„Við erum að sjálfsögðu allir í bláa liðinu.“