KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Fyrsta skothelda gróðaplanið kynnt fyrir ungt fólk í Hörpu

Félagarnir leigðu Hörpuna til að flytja þjóðinni fagnaðarerindið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynntu í vikunni nýtt úrræði ríkisstjórnarinnar sem kallast „fyrsta skothelda gróðaplanið“. Úrræðið verður varanlegt en hægt verður að nýta sér það í tíu ár. Því er ætlað að auðvelda ungu fólki að festa kaup á sínu fyrsta húsnæði sem þeir geta leigt út til erlendra ferðamanna og grætt á þeim fúlgur.
 
„Það hefur vantað úrræði fyrir ungt fólk svo það geti lifað hérna sómasamlegu lífi. Þetta frumvarp gerir ákveðnum hóp það auðveldara að komast inn á hótel- og gistimarkaðinn fyrir ferðamenn,“ segir Sigurður.
 
Nýja úrræði ríkisstjórnarflokkanna leyfir nokkrar leiðir sem allar byggjast á því að fólk noti séreignarsparnaðinn sinn til að kaupa sér íbúð. Íbúðinni er síðan hægt að breyta í gistiheimili fyrir erlenda ferðamenn, um leið og næst í iðnaðarmann sem er ekki flúinn til Noregs. Þá gæti unga fólkið enn búið í foreldrahúsum en leigt íbúðina út til ferðamanna á stórfé.

„Með því að nýta sér þetta úrræði og hugsanlega selja lundastyttur og vatn á okurverði samhliða því er mjög fljótlega hægt að verða milljónamæringur eins og hann Bjarni,“ segir Sigurður og bendir á félaga sinn fjármálaráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, sagði við upphaf blaðamannafundarins  að frumvörpin yrðu lögð fram við þegar þing kæmi saman. Hann vonaðist til að samstaða næðist um þau þar sem hingað til hafa allir svona gjörningar Framsóknarflokksins í kringum fasteignaumhverfið verið snilld.