KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Nýtt myndavélakerfi mun gera Bjarna erfiðara fyrir að fela skýrslur

Nokkrum mínútum eftir að þessi mynd var tekinn voru báðar skýrslurnar á borðinu horfnar.

Ríkisstjórnin kemur til með að stórbæta aðgengi bæði þingsins og almennings að skýrslum sem Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, reynir að "gleyma" ofan í skúffum. Um miðjan mars verður opnaður vefurinn opnarskuffur.is þar sem hver sem er getur í gegnum vefmyndavél fylgst með hvort Bjarni sé að laumast til að fela eitthvað með því að stinga því ofan í skúffu.

Þetta kemur fram í til­kynn­ingu frá ríkisstjórninni, en nýverið hafa fundist allskonar skjöl og skýrslur í fjármálaráðuneytinu sem faldar voru í tíð fyrrverandi fjármálaráðherra. 

„Þetta var vissulega svolítið öðruvísi. Að koma hérna inn í fjármálaráðuneytið og finna allar skúffur og skápa fulla af mikilvægum upplýsingum sem enginn vissi af. Ræstingarfólkið fann meira að segja uppkast af fjármálafrumvarpinu í klósettskápnum þar sem salernispappírinn er geymdur. Allt mjög sérstakt en ábyggilega á sér eðlilegar skýringar,“ segir Benedikt Jóhannsson, fjármálaráðherra.

Gert er ráð fyrir að bæði almenningur og þingmenn geti í gegnum vefinn opnarskuffur.is, fylgst með vefmyndavél inni á skrifstofu forsætisráðherra og þá tilkynnt með sérstökum hnapp ef það sést til Bjarna stinga einhverju laumulega ofan í skúffu.

„Þá látum við skrifstofustjóra Alþingis sækja viðkomandi skýrslu eftir vinnudaginn og koma til skila til réttra aðila. Þannig vinnum við bara framhjá vandamálinu án árekstra,“ segir Benedikt.

Sérstaklega hefur verið hugað að öryggismálum og sjónarmiðum um persónuvernd og sérstakar síur koma í veg fyrir að viðkvæmar persónuupplýsingar birtist, svo sem vegna einkasímtala, viðtala eða hagsmunapots fyrir ættingja og vini. Stefnt er að því að verkefnið verði að fullu komið til framkvæmda um áramót og þá tryggt að Bjarna sé með öllu ómögulegt að fela mikilvægt skjal.

„Þegar kerfið er algjörlega tilbúið mun fyrirkomulagið vera þannig að Bjarni fær ekki svo mikið sem bréfsnifsi án þess að hafa kvittað fyrir því, það skrásett og honum gert að skila því til baka innan réttra tímamarka,“ segir Benedikt að lokum.