KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Sífellt fleiri velja að verja jólunum á Landspítalanum

Brjálað að gera í desember og rífandi stemning.

Enn er pláss fyrir nokkra sjúklinga á þaki Landspítalans en ekkert lát er á vinsældum stofnunarinnar meðal almennings. Nú þegar eru öll herbergi yfirfull, gangar troðnir og það liggur við að sjúklingarnir séu farnir að berjast um kústaskápana til að liggja í.

Vinsælt er að liggja í veikindum um jólin. Það er hvergi betra að gera en á Landspítalanum en nú er svo komið að aðsókn er það mikil að spítalinn er að springa.

„Það er svakaleg stemning hérna, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Guðni Garðarsson, læknir, en hann er einn með um sextíu sjúklinga á sínum snærum. „Staðurinn er bara algjörlega yfirbókaður enda skiljanlegt, við erum með eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Við erum bara svolítið tímabundið blönk. Það reddast,“ heldur hann áfram.

Margir hafa lagt Landspítalanum lið og gefið aðstoð á meðan beðið er eftir því að algjört aðgerðarleysi stjórnvalda fari að bera árangur.

Forstjóri spítalans, Páll Matthíasson, segir marga velviljaða spítalanum núna um jólin. Þá hafi einstaklingar og fyrirtæki gefið föt, rúmföt og beitta hnífa sem nýtast á skurðstofunum og annað sem upp á vantar. „Það meira segja kom hérna hópur útigangsfólks um daginn og gaf spítalanum nokkra lítra af sjúkrahússpritti sem alltaf sárlega vantar. Samhugurinn og skilningurinn á aðstæðum okkar er allstaðar, nema hjá stjórnmálamönnunum,“ segir Páll.

Starfandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, segir að þetta hljóti bara að vera ímyndun heilbrigðisstarfsfólks. „Það getur ekki verið að það vanti eitthvað eða að neyðarástand sé í heilbrigðiskerfinu. Við hófum endurreisn heilbrigðiskerfisins á seinasta kjörtímabili. Næstum því 30% landsmanna trúði því og kaus okkur aftur þannig að það hlýtur að vera satt,“ fullyrðir Bjarni.

„Ef það vantar eitthvað meira þá get ég svo sem athugað það en við höfum mikilvægari málum að sinna. Fólk verður að skilja það. Nú er nýbúið að hækka við okkur þingmennina launin og bara í seinustu viku voru settar 100 milljónir í að niðurgreiða íslenskt lambakjöt erlendis svo það lækkaði ekki í verði fyrir íslenskan almenning. Allt kostar þetta peninga og það er ekki endalaust hægt að heimta fé í einhverja heilsu handa fársjúku fólki.“