KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Heiðarlegur maður verður formaður stéttarfélags

Ragnar Þór er fyrsti formaðurinn í langan tíma sem þjáist af heiðarleika.

„Þetta er fáránlegt. Svona á ekki að geta skeð. Hvernig plebbi náði kjöri er óskiljanlegt,“ segir fráfarandi formaður VR eftir að ljóst var að heiðarlegur maður var kosinn formaður félagsins.

Það hefur ekki verið formaður sem haft hefur hagsmuni venjulegs launafólks yfir stéttarfélagi í áratugi og margt því óljóst. Strax eftir að úrslit kosninganna var kunngerð tilkynnti nýkjörinn formaður að hann ætlaði að lækka laun sín um 300 þúsund krónur. Stjórnmálamenn og menn víðsvegar í atvinnulífinu hafa þurft að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi þegar þeir fréttu að það fordæmi hafi verið sett að maður í valdastöðu sagði laun sín fáránlega há miðað við kjör þeirra sem hann á að berjast fyrir.

„SALEK samkomulagið er dautt,“ tilkynnti formaðurinn ennfremur þar sem launafólk sitji eftir á meðan arðgreiðslur séu miklar út úr fyrirtækjum og stjórnmálamenn fái launahækkanir langt umfram vinnandi fólk.

ASÍ boðaði formenn fjórflokksins á neyðarfund strax eftir tilkynninguna enda veruleg hætta á því að eitthvað gæti breyst í samfélaginu, hvað þá ef þessi heiðarleiki reynist smitandi.