KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Sérfræðingar ekki sammála um hvað þetta hvíta á götunum er

Bifreiðar geta hæglega tekið upp á því að lenda á hvolfi ef ökumenn vanda sig ekki. 

„Þegar ég kom út þá var bara eitthvað hvítt, kalt duft yfir öllu. Ég hef aldrei séð þetta áður,“ segir maður sem fyrstur varð var við þetta fyrirbæri hér í Reykjavík. Fyrirbærið birtist upp úr þurru þegar fór að kólna, er hvítt á lit og ákaflega kalt viðkomu.

Guðmundur Hannesson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að þar á bæ sé ekki alveg vitað hvað þetta er nákvæmlega en verið er að fletta upp í gömlum veðurdagbókum hvort minnst sé á fyrirbærið þar. „Þetta er varasamur andskoti. Maður getur dottið í þessu,“ fullyrðir hann.

Hvíta, kalda duftið hefur valdið ökumönnum miklum vandræðum og jafnvel tjóni. Enginn átti von á því að það beinlínis gerði vegina hála og ylli því að bílar gætu ekki bremsað almennilega. Þá hafa fjöldi bíla lent í árekstrum vegna þessa og umferð gengið hægt og illa fyrir sig.

„Nú er ég enginn sérfræðingur þar sem ég minnist þess ekki að hafa séð þetta áður en svo virðist sem kalda duftið setjist á vegina og komist það í tæri við vatn verður það að ís sem síðan minnkar grip dekkja bifreiðarinnar. Ótrúlegt að sjá þetta svona. Þetta gerist bara á einni nóttu og kemur öllum að óvörum,“ segir Guðmundur.

Samgönguráðuneytið skipaði viðbragðshóp í flýti til að kanna hvað hægt væri að gera svo umferð gengi betur fyrir sig. Tillögur þessa hóps eru margar og hver annarri furðulegri. Þá leggur hann til að ökumenn kaupi sérstök dekk og sitji undir bíla, en þau hafi nagla sem ná gripi í hálku. Önnur tillagan var að bera salt eða sand á götur borgarinnar en erfitt er að sjá hverju það myndi nú eiginlega skila.

„Það sem pirrar mig mest er að hafa ekkert verið varaður við þessu. Þetta bara allt í einu birtist og enginn varaði við. Ég myndi skilja upplýsingaskortinn ef þetta væri að gerast á hverju ári og maður gæti búist við þessu en nú man ég ekki eftir að þetta hafi gerst áður. Maður er bara algjört eyland og í raun furðu lostinn hvað er eiginlega í gangi,“ sagði ökumaður sem fréttastofa náði tali af, en hann var spólandi og komst ekki af stað vegna hála hvíta duftsins.

„Hér þarf ég bara að sitja þangað til mér er ýtt. Það væri ágætt ef einhver myndi nú drullast til þess að hjálpa mér,“ sagði hann reiðilega en við höfðum engan tíma til að sinna honum.