KVENNABLA&Eth;I&Eth;

Þjóðin táraðist yfir tilfinningaríku viðtali við ríkustu glæpamenn landsins

Það er ómanneskjulegt að neyða forríka menn til að búa úti á landi.

Það var með sanni átakanleg stund þegar nýir verjendur þeirra sem hlutu dóm í Al-Thani málinu tóku viðtal við skjólstæðinga sína sem nú afplána á Kvíabryggju.

Eftir að dómsmálinu lauk hafa þeir Ólafur Ólafsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundson ráðið fréttastofu Stöðvar 2 sem nýja verjendur sína og hefur fréttastofan hafið baráttu um almenningsálitið fyrir skjólstæðinga sína.

Eigandi 365 hefur sjálfur heimsótt þá í fangelsið til að ræða hvernig best sé að sannfæra almenning um að bankamennirnir eru blásaklaus fórnarlömb hefndarþyrsts réttarkerfis sem algjörlega er rotið að innan.

Þorbjörn Þórðarson fréttamaður heimsótti þremenningana í fangelsið og var viðtalið birt sem fyrsta frétt kvöldfréttartímans og auk þess í Ísland í dag. Það sást á Þorbirni að honum var brugðið við komu sína á Kvíabryggju. Þar mættu honum þrír bugaðir menn sem neyddir eru til að búa úti á landi í tiltekinn tíma í refsingarskyni fyrir að rústa fjárhag heillrar þjóðar með þeim afleiðingum að fjöldi fólks missti allt sitt og er enn, átta árum seinna, að ná sér á strik.

Fangarnir eru miklum órétti beittir. Þeir fá aðeins heimagerðan íslenskan mat, stunda holla líkamsrækt og þurfa að umgangast menn sem aldrei hafa átt milljón inni á bankareikningi. Þá neyðast þeir til að hafa skrifstofu sína og tölvubúnað inni í herbergi sínu en ekki í húsnæði á fimmtándu hæð og öll þeirra samskipti við umheiminn þurfa að fara fram með hefðbundnum síma í stað snjallsíma.

Það var erfitt að horfa á þetta viðtal. Hvernig getur siðað samfélag leyft sér að ofsækja mennina sem högnuðust gríðarlega á því að leggja þetta sama samfélag í rúst?

Einnig gagnrýndu þremenningarnir harðlega þá staðreynd að málsmeðferð í þessum svokölluðu hrunmálum tæki allt of langan tíma og að margir væru með réttarstöðu sakbornings í fleiri ár. Þeir gleymdu hinsvegar að nefna það að málsmeðferð tekur oft mun lengri tíma þegar hinir grunuðu eru með sérstaka lögfræðinga í því að tefja málin og þvæla fram og til baka í þeirri von um að fá þeim vísað frá á tækniatriðum.